sunnudagur, desember 25, 2005

Gleðileg jól öll sömul...

Það gafst lítill tími til þess að skrifa jólakort í ár, þannig að við höfum ákveðið að skrifa lítið jólabréf í staðinn.

Í janúar gerðist sá merkisatburður að Viktor settist á skólabekk á nýjan leik, þeir sem til þekkja vita að drengurinn er hreint undrabarn í skóla og á glæsilega skólagöngu að baki. Nú getur hann státað að því að vera í námi sem næstum engir íslendingar sækja erlendis, það er að segja trésmíði.
Hrabba réri einnig á ný mið í byrjun árs, hún byrjaði að vinna á leikskóla. Við gengum út frá því að þetta væri þægileg fimmtán tíma vinna sem hentaði vel við hliðina á handboltanum. En raunin varð önnur. Hrabba hafði lent á dramatískasta leikskóla í heimi að við höldum, það hefur aðeins verið haldin einn starfsmannafundur án þess að einhver hafi farið að grenja, svo skiptist starfsfólkið á í að vera í veikindafríum af ýmsu tagi, þó mest út af stressi. Hver verður ekki stressaður á því að þurfa að leika við börn?
Handboltalega séð var fyrri hluti ársins ekki nógu góður og SK Århus féll úr efstu deild á aðeins tveimur mörkum. Fjölskyldan ákvað að vera um kyrrt í Arhus og vera með í að koma liðinu á kortið aftur, eins og staðan er í dag erum við á góðri leið í áttinni að því, en liðið er í efsta sæti fyrstu deildar.
Í júlímánuði fórum við fjölskyldan ásamt fríðu föruneiti í sumarfrí til Lanzarote. Erna systir Viktors og fjölskyldan hennar, Róbert, Daníel og Ísól, voru með í för, en ferðin var í boði aldraðara foreldra Viktors og Ernu sem urðu hundrað ára í þessari ferð. Veskið var því skilið eftir heima og nýðst á gamla fólkinu.
Herbergjanýting á Hótel Århús var nokkuð góð á árinu sem er að líða, fáar helgar þar sem engin var bókaður í mat eða gistingu, þannig að þessi rekstur stóð svo sannarlega undir væntingum og lítið um kvartanir á meðal gestanna. Við stefnum þó að því að gera ennþá betur á komandi ári og fá ennþá fleiri gesti, skorum við því á alla sem til okkar þekkja að láta til skara skríða og gera sér ferð til Jótlands. Fyrir þá sem ekki til þekkja þá er Hótelið okkar fimm stjörnu og er kostnaður við gistingu og uppihald hjá okkur aðeins að koma sér á svæðið, sem þýðir að það er gróði með hverjum deginum sem líður, reglur hótelsins segja þó til um að aðeins meigi bóka tvær vikur í senn. Skorum á alla sem þora, skemmtidagskrá er eftir árstíðum og hæfi hvers og eins.
Okkur þykir þó rétt að benda á að þó við höfum sagt að allir séu velkomnir hvenær sem er, þá viljum við helst fá að opna sjálf fyrir þeim. Þetta gleymdum við greinilega að taka fram fyrir árið sem er að líða. Í byrjun desember fengum við nefnilega gesti sem gerðu ekki boð á undan sér, þannig að við vorum ekki heima þegar þeir komu og þeir komu að luktum dyrum. Þá voru góð ráð dýr fyrir þá og þeir náðu að spenna upp herbergisglugga og koma þannig inn. Þegar þeir svo komu inn leiddist þeim greinilega og fóru í falinn hlut og leituðu gaumgæfilega í öllum skúffum og skápum í stofunnni og herbergjunum. Eitthvað urðu þeir svo sárir yfir því að ekki voru kökur á borðum og standandi skemmtun, þannig að þeir fóru að ég held í fússi, því að þeir gleymdu meira að segja að loka á eftir sér. Við búumst samt við að þeir komi fljótlega aftur því að þeir eru ekki ennnþá búnir að skila nokkrum hlutum sem þeir fengu lánaða, þ.á.m. tölvuna okkar (með ísl. lyklaborði), hnífaparasett (vantaði sjö hnífa, gaffla og svo kökuspaðan) Chelsea búning (númer 22 merktur Lúkas). Já þetta voru góðir hlutir sem þeir fengu lánaða og afar einfalt að koma í verð (Ahgmed þriggja ára verður flottur í búningnum frá stóra bróður sínum;).
Viktoría vill meina að Glúmur og Glámur ( þjófarnir úr Línu Langsokk ) hafi verið þarna á ferðinni. Þegar við sögðum henni frá þessum gestum voru fyrstu viðbrögð hennar að spyrja hvort þeir hefðu nokkuð stolið peningunum hennar. Við sögðumst nú ekki vita það og sögðum henni að athuga málið. Mín labbaði inn í herbergið sitt, opnaði eldavélina sína og tók þar út litla buddu. Mín var heldur betur í skýjunum yfir því að þeir hefðu ekki áttað sig á felustaðnum hennar.
Árósagengið óskar vinum, kunningjum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Kveðja
Viktor, Hrabba og Viktoría Dís.

Comments:
Takk fyrir komuna norður Viktor og Viktoría - verður víst að bíða betri tíma að fá Hröbbuna í heimsókn.
Flott jólabréfið ykkar en minni þá á sem eru kannski búnir að gleyma að frænka fór í kaf í sundskólanum sínum og ÞAÐ er sko afrek hjá minni;-). Ég er allavega þrælmontin af henni. Hún og Daníel tilkynntu það reyndar í gær að þau færu bara í kaf í sundi, ekki í baði (?).
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?